Skvísurnar á Stavnsvej

Friday, April 06, 2007

Gulrótarsúpa

3 skalottlaukar
3 msk smjör
500 gr gulrætur
3 dl vatn
1 fiskiteningur
1 dl hvítvín, eplasafi eða mysa
5 msk rjómaostur
Cayenne-pipar á hnífsoddi
Salt og pipar
Sítrónusafi eftir smekk
150 gr rækjur ef vill
2 stilkar ferskt dill


Skerið skalottlaukana smátt. Bræðið smjör í potti og léttsteikið laukinn. Þvoið gulræturnar afhýðið og skerið í bita. Setjið í pottinn og steikið með lauknum. Bætið vanti við og fiskiteningi og látið suðuna koma upp. Látið sjóða í 20 mín. Maukið þá súpuna með töfrasprota eða í matarvinnsluvél. Blandið hvítvíni eða mysu út í, ásamt rjómaosti og látið sjóða í 5 mín. Við vægan hita. Bragðbætið með cayenne-pipar, salti, pipar og sítrónusafa. Setjið loks rækjurnar út í súpuna en ekki láta suðuna koma upp. Saxið dillið og stráið yfir. Berið fram með brauði.

Verði ykkur að góðu
Guðrún Erla

Sætar kartöflur, konfekt


2-3 bollar sætar kartöflur
1 tsk vanillusykur
1/4 salt
1 1/4 bollir sykur
1/2 bolli smjör
1/2 lyftiduft
2 egg

Kartöflurnar soðnar, öllu blandað saman og bakað við 170° í ca 20 mín.

3 tsk brætt smjör
1/4 bolli púðursykur
1 1/4 Corn flakes
1/2 bolli heslihnetur

Þessu hrært saman, sett ofaná og bakað aftur.

Þetta er þvílíkt sælgæti, borið fram með kjötréttum.

Kveðja Guðrún erla

Monday, March 26, 2007

Kókossúpa með engiferkeim

Þessi er dýrlega og mjög holl. Stelpurnar mínar borða hana af bestu lyst.

Blandað grænmeti 4 bollar
t.d. paprika, kartöflur, gulrætur, gular baunir (mæli með frosnum).
Engifer, vænn bútur
Hvítlaukur 4 rif
laukur 1 stk
kókósmjólk 1 stór dós, má alveg vera ein lítil til viðbótar
tómatpúrei 1 dós
grænmetissoð 4 bollar, 1 teningur
kóríanderlauf eða minnta

Hitaðu olíu, lauk, hvítlauk og rifið engifer saman í potti þar til laukurinn er orðinn mjúkur. Smátt skorið grænmetið er sett í pottinn og steikt við háan hita í 3-4 mín, hrærið vel á meðan svo ekki brenni við. Soðinu, kókósmjólkinni og tómatpúreinu blandað saman við. Kryddað með salti og pipar. Soðið í 10 mín. Stráðið kóríanderlaufum yfir og berið fram með hvítlauksbrauði.

Verði ykkur að góðu,
Guðrún Björk

Wednesday, February 28, 2007

Rjómalöguð Gulrótarsúpa

Þessi uppskrift kemur úr matreiðslubók Nönnu og er æði. Fyrir utan hvað hún er ódýr í framleiðslu og holl. Það má auðvitað skipta rjómanum út fyrir léttmjólk eða létta kókosmjólk ef einhver vill það heldur.

Uppskrift
1 msk smjör (eða ólívuolía)
1 stór laukur saxaður
1 hvítlauksgeiri saxaður smátt
1/2 -1 tsk karríduft
6-800 g gulrætur, afhýðaðar og sneiddar
1.2 l kjúklingasoð eða grænmetissoð
pipar og salt
100 ml rjómi/matreiðslurjómi, mjólk
ferskar kryddjurtir til að skreyta (má sleppa)

Aðferð
Smjörið er brætt í þykkbotna botti og smjörið, laukurinn og hvítlaukurinn látinn krauma við vægan hita í ca 6-10 mín. Þá er karríinu hrært saman við og eftir 1-2 mín er gulrótunum bætt útí ásamt soðinu. Saltið og piprið og látið súpuna malla í ca 20 mín. Þá er súpan látin kólna dálítið og síðan maukuð í matvinnsluvél eða blender í nokkrum skömmtun. Súpan er síðan sett aftur í pottinn, rjómanum bætt útí og hituð að suðu. Saltið og piprið ef ykkur finnst þurfa og skreytið með ferskum kryddjurtum. Berið fram með góðu brauði.

Verði ykkur að góðu
kv Sigrún

Monday, February 26, 2007

bananamúffur

Þessar múffur eru meira eins brauð, ekki sætabrauð og því tilvaldar í nestisboxið hjá börnunum.

Uppskrift (gerir 12 stórar múffur)
250 gr hveiti (má gjarnan vera heilhveiti eða blanda af heilhveiti og spelti)
1 3/4 dl undanrenna
75 gr haframjöl
75 gr brætt smjör ( má sleppa og bæta þá einum banana við)
30 gr strásæta (sykur fyrir þá sem vilja)
3 msk fljótandi hunang
2 bananar (marðir)
1 egg
1 msk lyftiduft
1 tsk kanill
1 tsk múskat

Aðferð
Blanda öllu saman í skál og hræra þar til allt er komið vel saman. Bakið í ca 20-25 mín við 200 gráður, eða þar til múffurnar hafa lyft sér og dökknað aðeins.

kveðja Sigrún

Skúffukaka

Þessi skúffa er mjög góð, mjúk og verður ekki þurr (nema maður gleymi henni í ofninum)

Uppskrift
200 gr bráðið smjör
2 bollar sykur (sniðugt að nota sweet & less til að gera hana aðeins hollari)
2 1/2 bolli hveiti
2 stór egg (3 lítil)
3 kúfaðar msk kakó
1/4 tsk salt
1 tsk lyftiduft
1 tsk matarsóti
1 bolli AB mjólk/súrmjólk
1/4 bolli heitt vatn

Þeyta egg og sykur saman, setjið síðan restina útí og hrærið þar til allt er komið saman.
Bakið við 170 í 30 mín (stingið í hana til að tékka hvort hún sé tilbúin, þar sem bakarofnar eru misjafnir). Þessi uppskrift er passleg í 2 hringform, eða litla skúffu (ca 25x30). Ef þið eruð með stóra skúffu myndi ég gera 1 og hálfa skúffu, svo hún verði ekki of þunn.

Krem

ca 3/4 til 1 kassi flórsykur
3-5 msk kakó
1-2 tsk vanillusykur/duft
150 g smjör (við stofuhita)
nokkrar msk sterkt kaffi
heitt vatn ef ykkur finnst kremið of þykkt.

Sigtið saman flórsykur og hveiti, bætið restinni af hráefnunum útí og þeytið vel saman í handþeytara eða hrærivél. Ekki bræða smjörið, kremið verður miklu meira fluffy fyrir vikið. Ef ykkur finnst kremið of stíft bætið þá við smávegis vatni, ca 1-2 msk í einu þar til ykkur finnst þykktin passleg.

Kveðja Sigrún

Friday, February 09, 2007

Vetrargúllassúpa með hafraklöttum

Þessi súpa er alveg rosalega góð, bragðmikil og matarmikil. Uppskriftinn kemur frá Ragnari Frey (ekki Freysa) matgæðingi, kunningja okkar.

Uppskrift
1kíló nautagúllas
2 litlir laukar
2 gulrætur
3 sellerístilkar
5 hvítlauksrif
1.5 líter vatn
1/2 flaska rauðvín
3 teningar nautakraftur
1 dós tómatpure
6 meðalstórar kartöflur
250 g sveppir
2 gulrætur
3 lárviðarlauf
ferskt rósmarín af einni grein
salt og pipar

Brúnið kjötið í olíu á pönnu og takið það svo af og geymið, ásamt soðinu sem myndast. Setjið, lauka, 2 gulrætur, sellerí og hvítlauk í mixer. Bætið aðeins við olíu á pönnuna og brúnið saxaða grænmetið þar til það er orðið glært og mjúkt. Bætið þá kjötinu útí ásamt soðinu og hitið saman smá stund. Saltið og piprið. Því næst er vatni, rauðvíni, teningum, tómatpure, kartöflum (sem hafa verið flysjaðar og skornar í fernt), niðurskornum gulrótum, sneiddum sveppum, lárviðarlaufi og rósmarín blandað við. Saltið og piprið aftur og látið malla undir loki við háan hita í 30 mín. Lækkið svo hitann og látið malla áfram í klst. Í þessa kássu á ekki að spara rauðvínið, setjið frekar meira en minna. Með þessu er gott að borða hafraklatta og gott salat

Hafraklattar (gerir ca 12 klatta)
2 bollar hveiti
2 bollar heilhveiti
smá haframjöl
11/2 msk lyftiduft
100 gr smjör (sem hefur verið fryst aðeins og rifið niður með grófu rifjárni)
11/2 bolli mjólk

Blandið öllu hráefninu saman í hrærivélaskál og hærið vel saman, þannig að úr verði þétt deig, dáldið klístrað, en þó ekki þannig að það límist við. Skiptið deiginu niður í 12 bita ca og fletjið hvern bita út í litla köku/klatta. Stingið á klattana með gafli og bakið við ca 10 mín við 190 gráður.

Verði ykkur að góðu
kv Sigrún

Thursday, February 08, 2007

Espresso kaka

Þessa köku smakkaði ég hjá Ólínu vinkonu og hún er bara syndsamlega góð:)

Uppskrift
4 egg
100 g sykur
Korn úr 1 vanillustöng
100 g hveiti
Þrefaldur expressó

Þeyta egg+sykur þar til blandan verður létt og ljós. Blanda svo hveitinu og þurrefnunum varlega saman við með sleikju/sleif. Setja í hringlaga tertuförm, ca 24 cm og bakið í 15 mín við 180°C . Kælið tertubotninn og losið úr forminu en setjið síðan hringinn af forminu aftur utan um botninn og bleytið hann vel með expressó kaffinu. (ég notaði meira en 3 expr.)

Súkkulaðimús ofaná:

1 1/3 dl rjómi
1 ½ dl sýrður rjómi
300 g
56% súkkulaði
2 msk koníak (má sleppa)
50 g lint smjör

Setjið rjóma og sýrðan rjóma í pott og látið suðuna koma upp við vægan hita. Takið pottinn af hitanum. Brjótið súkkulaðið í bita og setjið það út í, látið það bráðna og bragðbætið með koníaki ef vill. Hrærið lint smjörið saman við súkkulaðimúsina þar til hún verður gljáandi, slétt og falleg. Hellið súkkulaðimúsinni ofan á tertubotninn og látið stífna. Skreytið með ávöxtum.


Njótið vel

kv Sigrún

Mexíkanska lasagnað hennar Ólínu

Þessi uppskrift kemur frá Ólínu vinkonu minni. Ég hef ekki prófað hana ennþá, en hef hugsað mér að gera það hið fyrsta, líst ofsalega vel á þessa uppskrift.

Uppskrift

5 dl Refried Beans ( 2 dósir) –ég nota bara 1.....
2 dl vatn
1 tsk salt
1 tsk cumin
2-3 msk jalapeno pipar, saxaður (má sleppa)
8 tortilla kökur (eða 4-6 stórar)
1 kjúlli (eldaður)
1 dós salsasósa
2 dl rifinn ostur
2 dl sýrður rjómi ( 1 dós)
100 g rjómaostur
100 g rifinn cheddar ostur ( má vera venjulegur)

Setjið baunamaukið í pott ásamt vatninu, saltinu og cumininu. Hrærið vel í blöndunni á meðan hún hitnar. Takið pottinn af hitanum og bætið pipar útí. Leggið eina tortilla í eldfast mót, smyrjið baunamauki yfir kökuna. Rífið niður kjúklinginn í litla bita og dreifið yfir baunamaukið. Stráið kryddi yfir kjúklinginnog setjið 2-3 msk af salsasósu yfir.Dreifið hluta af ostinum yfir og leggið aðra tortilla köku ofaná. Áfram til skiptis, kökur, baunamauk, kjúlla, krydd, salsa og ost. Efst er tortilla kaka. Þeytið sýrða rjómann og rjómaostinn saman og smyrjið honum yfir efstu kökuna. Stráið cheddar ostinum yfir og bakið við 200°C í 12-15 mín. Borið fram með salsasósu, söxuðum hráum lauk, sýrðum rjóma, guacamole og hrísgrjón ef vill.


Verði ykkur að góðu
kv Sigrún

Sítrónuostakaka

Þessa köku vorum við með í skírninni hans Ísaks Leós, hún er voða góð og fersk. Mjög gott að skreyta hana með ferskum berjum, kíví og rifnum sítrónuberki.

Uppskrift

Botn
1 2/3 bolli mulið Hafrakex
5 msk sykur
5 msk smjör

Hrært saman við vægan hita í potti og svo þrýst niður í form, annað hvort eldfast eða springform. Bakað í 8 mín í 175°c

Fylling
1 pk sítrónugel
1 bolli sjóðandi vatn
hrært og kælt
500 gr rjómaostur
1 tsk vanilludropar
1/2 bolli sykur
1 peli þeyttur rjómi

Hrærið saman í hrærivék, rjómaosti, vanilludropum og sykri. Létt þeytið rjóma í annarri skál. Blandið rjómanum svo saman við rjómaostablönduna og hellið að síðustu sítrónuvökvanum útí. Helllið blöndunni að síðustu í formið og kælið í nokkra tíma.

verði ykkur að góðu
kv Sigrún

Sunday, February 04, 2007

Afrískur lambapottréttur (bobotie)

Ég prófaði þennan pottrétt í gærkvöldi og hann kom mjög á óvart og smakkaðist voða vel þó ég segi sjálf frá, reyndar voru þau HugRúnar og Freysi sammála. Það á reyndar að vera lambahakk í réttinu, en það var ekki til í BILKA þannig að ég notaðist við nautahakk en notaði lambakraft eins og gefið var uppí uppskriftinni. Hér kemur uppskriftin

Uppskrift
2 laukar
50 g smjör
2-3 msk olía
2 stór græn epli
75-100 g rúsínur
2-3 msk Madras karrí
800 g lambahakk
2 dl vatn (1/2 lambakraftsteningur)
salt og pipar
3-4 msk hot mango chutney
1-2 msk sítrónusafi
75 g afhýddar og saxaðar möndlur
2 sneiðar brauð
3 egg
3 dl mjólk eða rjómabland (ég notaði 2 af rjóma og 1 af mjólk)

Aðferð
Saxið laukinn og léttsteikið hann í olíu og smjöri. Skrælið eplin og skerið í bita og setjið útá pönnuna ásamt rúsínum. Kryddið með karrí og látið malla saman í smá stund. Takið helminginn af laukblöndunni frá og geymið. Setjið hakkið útá pönnuna og brúnið, hellið þá soðinu útí og bragðbætið með salti og pipar og mango chutney og bætið helmingnum af möndlunum við. Látið þetta malla við vægan hita á meðan þið útbúið eggjarjóma blönduna. Skerið brauðið í teninga og þeytið eggin í skál. Bætið rjómablandi útí ásamt brauðmolum. Hitið ofnin í 200 og smyrjið ofnfast fat (mæli með frekar stóru eða djúpu fati). Setjið hakkblönduna og laukblönduna til skiptis í fatið og hellið rjómablandinu inn á milli. Dreifið svo afganginum af möndlunum yfir og bakið í 45-50 mín.

Gott er að bera réttinn fram með góðu salati, mango chutney og brauði

Verði ykkur að góðu
kv Sigrún